Skólastarf fellur niður á morgun föstudag 14. febrúar

Vegna mjög vondrar veðurspár fyrir næsta sólarhring höfum við ákveðið að aflýsa kennslu í Víkurskóla á morgun föstudag 14. febrúar. Þetta á við um allar bekkjardeildir. Dægradvöl verður einnig lokuð þar sem nú er í gildi rauð veðurviðvörun.

Stjórnendur

Kokkakeppni ,,Master chef’’

Lokaverkefni valhóps í Matreiðslu lauk með kokkakeppni. Fjórir hópar kepptu og fengu úthlutað mismunandi verkefnum. Krakkarnir voru afar metnaðarfull og lögðu sig fram um að vinna hratt og skipulega. Útkoman var glæsileg. Fengnir voru dómarar til að dæma keppnina og höfðu þeir einkum til hliðsjónar, framsetningu og bragð réttana. Hóparnir voru mjög jafnir en Tvistarnir unnu að lokum en þann hóp skipuðu, Rúnar Máni (9.b), Birnir Frosti (10.b) og Björn Vignir (7.b).

Fleiri Myndir.

Dagur stærðfræðinnar

Í tilefni af Degi stærðfræðinnar 7. febrúar unnu nemendur í 5.-10. bekk saman  í stærfræðismiðju. Þema dagsins að þessu sinni voru mynstur í stærðfræði. Ákveðið var að nemendur myndu hanna mynstur í peysu. Veittar voru viðurkenningar fyrir fallegasta og frumlegasta mynstrið og einnig fyrir mynstur sem væri góð viðskiptahugmynd. Krakkarnir stóðu sig vel og mörg skemmtileg mynstur komu fram. Virkilega vel heppnuð smiðja, en það voru þær Sif og Victoria sem höfðu veg og vanda að undirbúningnum. Þeir sem fengu hönnunarviðurkenningu voru Bjarni Steinn (5.b), Olof Jóhann (6.b), Stephanie (7.b), Eyjólfur (7.b) og Sara Mekkín (8.b).

Forvarnarfræðslu í Víkurskóla

Ágætu foreldrar / forráðamenn!

Boðið verður upp á forvarnarfræðslu í Víkurskóla 19. febrúar næstkomandi kl. 17 á sal skólans. Foreldrar og forráðamenn barna og unglinga eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Aðalfræðsluaðili að þessu sinni verður Foreldrahús. Eitt af markmiðum þess er að fræða foreldra um skaðsemi áfengis- og vímuefnaneyslu og fyrstu einkenni hennar, svo að þeir geti unnið markvisst forvarnarstarf með börnum sínum. Sjá nánar um Foreldrahús: foreldrahus.is

 

Zumba í Víkurskóla!

Eins og allir vita fór Lífshlaupið 2020 af stað í gær 5. febrúar.  Í Víkurskóla var tekið forskot á sæluna þriðjudaginn 4. febrúar þegar nemendur og starfsfólk komu saman á sal skólans og dönsuðu zumba saman. Zumba er skemmtileg hreyfing sem allir geta tekið þátt í. Þetta varð hin besta skemmtun. Nú er Lífshlaupið komið á fullt skrið og nemendur og starfsfólk ætla svo sannarlega að taka þátt í verkefninu með lífsgleði að leiðarljósi.

Fjör í Hjallarofinu

Loksins fengum við frábæra útivistardaga í síðustu viku og nýttu nemendur þá aldeilis vel. Dægradvalarhópurinn fór að renna í Hjallarofinu og það gerðu krakkarnir í forskólahópnum líka. Hér er mynd af þessum flotta hópi. Þau voru ótrúlega dugleg að pjakka upp hlíðina ferð eftir ferð. Sannarlega góð og holl útivist.

Lífshlaupið 2020

Þann 5. febrúar hefst Lífshlaupið í Víkurskóla. Þetta er annað árið sem við tökum þátt í þessu skemmtilega verkefni sem fram fer á landsvísu. Allir nemendur ætla að taka þátt og starfsmenn láta ekki sitt eftir liggja. Við hvetjum foreldra til að leggja verkefninu lið. Nemendakeppnin stendur yfir í 2 vikur. Hér er upplýsingabréf vegna verkefnisins.

Þorrablót Víkurskóla

Að venju var þorra blótað í Víkurskóla. Blótið gekk í alla staði vel og allir hefðbundnir fastir liðir á dagskrá. Nemendur og starfsfólk borðuðu þorramat saman. Eftir matinn komu allir saman á sal skólans og sungu þorralög og nemendaráðið flutti vandaðan annál sem tók á helstu viðburðum í skólastarfinu milli blóta. Að þessari dagskrá lokinni var að venju tekið í spil. Nemendur í 5.-10. bekk spiluðu félagsvist og nemendur í 1.-4. bekk spiluðu Ólsen, Ólsen. Hér má sjá sigurvegarna, Andra Berg í 4. bekk og Agnesi Edith í 7. bekk. Við óskum þeim til hamingju!

Listasmiðja í Víkurskóla

Sögur af sjónum

Listakonurnar Ásthildur Jónsdóttir og Guðbjörg Lind Jónsdóttir komu í heimsókn í Víkurskóla með Listasmiðjuna Sögur af sjónum.  Heimsóknin er liður í  jarðvangsfræðslu Víkurskóla, en skólinn er einn af þremur jarðvangsskólum Kötlu Geopark. Allir nemendur í 1.-10. bekk tóku þátt.

Í  verkefninu er lögð áhersla á að vinna listrænt með minningar og tilfinningar tengdar hafinu.  Hafið og vatnsbúskapur jarðarinnar hefur mikil áhrif á hvernig heimurinn þróast.  Það er mikilvægt fyrir alla að skilja hvernig vatn og lífið í hafinu tengist fólkinu sem býr á jörðinni. Þjóðir heims byggja afkomu sína á vatnsbúskap.  Víða í heiminum eru hættulegar aðstæður vegna vatnsskorts. Verkefni Ásthildar og Guðbjargar Lindar er þverfaglegt og gefur forsendur fyrir kennara að halda áfram með vinnuna og nálgast málefni hafsins út frá ólíkum upphafspunktum.  Afrakstur vinnunnar verður sýndur á Barnamenningarhátíð í sameiginlegri innsetningu í Listasafni Reykjavíkur á komandi vori.

Það er mikil fengur fyrir nemendur Víkurskóla að fá svona heimsókn.  Ánægjulegt var að sjá hvað allir höfðu gaman af að skapa og læra í smiðjunni sem sannarlega  færði anda hafsins inn í skólann.  Skólinn er afar þakklátur þessum tveimur listakonum fyrir að koma með þetta skapandi verkefni inn í skólastarfið og þakkar Ásthildi og Guðbjörgu Lind kærlega fyrir komuna.

 

Fleiri Myndir.

Ferðaskrifstofur í Víkurskóla

Nemendur í 7.-8. bekk hafa að undanförnu unnið að skemmtilegu verkefni með Sif Hauksdóttur kennara. Það fólst í því að velja land, borg eða svæði, kynna sér það rækilega og útbúa fjölbreytt kynningarefni. Lokaverkefnið var svo að setja upp ferðaskrifstofubás í skólanum. Nemendum í 5.-10. bekk og starfsmönnum var boðið í heimsókn til ferðaskrifstofanna til að kynna sér það sem krakkarnir höfðu útbúið. Það var gaman að sjá hvað krakkarnir höfðu lagt metnað í verkefnið og voru greinilega búin að útbúa sig vel fyrir spurninaflóð gestanna.