Lífshlaupið 1.sæti!

Nemendur Víkurskóla stóðu sig alveg frábærlega vel í hvatningarverkefni ÍSÍ, Lífshlaupinu. Þau lentu í 1. sæti í sínum flokki. Að því tilefni var að sjálfsögðu smellt af mynd. Á myndina vantar 6 nemendur sem auðvitað tóku líka þátt í hlaupinu. Þátttaka nemenda í skólanum var 100%. Þrátt fyrir að veðrið væri ekki alltaf upp á það besta á meðan á keppninni stóð létu nemendur það ekkert á sig fá og voru líka dugleg að vera úti og hreyfa sig meðfram hreyfingu í íþróttahúsinu. Til hamingju krakkar!

Starfsfólk Víkurskóla stóð sig líka með mikilli prýði, þar var þátttakan líka 100% og 4. sæti í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins.

Snjólist

Við nýtum snjóinn í listaverkagerð. Þessir snjókarlar skemmtu sér með okkur í fríminútum og við með þeim. Snjóhús, snjóvirki, snjógöng allt unnið í mikilli samvinnu.

 

Sleðaferð í Norður Vík

Í tilefni þess hversu krakkarnir stóðu sig vel í Lífshlaupinu ákváðum við að gera okkur glaðan dag og skelltum okkur í sleðaferð í Norður-Víkur túnið. Við fengum tvo pabba úr hópnum og einn frænda til þess að draga krakkana upp þannig að hægt væri að fara sem flestar salíbunur niður. Það voru þeir Sigurður Gýmir, Óðinn og Einar Vignir. Við þökkum þeim kærlega fyrir aðstoðina. Ingi Már annar af skólabílstjórunum okkar góðu tók að sér að ferja hópinn á milli staða til þess að við gætum átt sem lengstan tíma í brekkunni. Þegar allir voru búnir að renna sér bauð Æsa í Norður-Vík öllum inn í heitt kakó og kunnum við henni okkar bestu þakkir fyrir.

Hressandi og góð útivist og allir komu brosandi tilbaka.

Skíðaferð

Þann 17. febrúar fóru nemendur í 7.-10. bekk ásamt fararstjórum í skíðaferð í Bláfjöll. Lagt var af stað snemma morguns með nesti í farteskinu. Skíðað var frá klukkan 11-16 í frábæru veðri. Einhverjir voru að stíga sín fyrstu skref í skíðamennskunni en aðrir voru búnir að fá undirstöðu áður. Allt gekk eins og í sögu og krakkarnir voru mjög ánægð með ferðina og voru til fyrirmyndar í einu og öllu. Á leiðinni heim var komið við í Hveragerði til þess að fá sér í svanginn.

Snjókarlagerð

Krakkarnir í forskóla Víkurskóla eru mjög dugleg að leika úti. Þau eru búin að fara nokkrar ferðir að renna í snjónum sem hefur gert sig heimakomin í Víkinni eftir áramótin. Á myndinni má sjá hópinn þar sem hann var búinn að gera heila snjókarlafjölskyldu á bankablettinum.

 

Valentínusarball

Nemendaráð Víkurskóla í samstarfi við umsjónarkennara 7.-10. bekkja stóð fyrir Valentínusasrskemmtun í skólanum 13. febrúar sl. Krakkarnir lögðu metnað í að skreyta fyrir kvöldið. Eins voru bakaðar Valentínusarkökur og pizzur. Veðrið var ekki upp á það besta þennan dag þannig að flýta varð skemmtuninni og sumir lentu í ævintýrum á heimleiðinni. Þetta kom þó ekki að sök og skemmtunin var hin besta.

Kokkakeppni ,,Master chef’’

Lokaverkefni valhóps í Matreiðslu lauk með kokkakeppni. Fjórir hópar kepptu og fengu úthlutað mismunandi verkefnum. Krakkarnir voru afar metnaðarfull og lögðu sig fram um að vinna hratt og skipulega. Útkoman var glæsileg. Fengnir voru dómarar til að dæma keppnina og höfðu þeir einkum til hliðsjónar, framsetningu og bragð réttana. Hóparnir voru mjög jafnir en Tvistarnir unnu að lokum en þann hóp skipuðu, Rúnar Máni (9.b), Birnir Frosti (10.b) og Björn Vignir (7.b).

Fleiri Myndir.

Dagur stærðfræðinnar

Í tilefni af Degi stærðfræðinnar 7. febrúar unnu nemendur í 5.-10. bekk saman  í stærfræðismiðju. Þema dagsins að þessu sinni voru mynstur í stærðfræði. Ákveðið var að nemendur myndu hanna mynstur í peysu. Veittar voru viðurkenningar fyrir fallegasta og frumlegasta mynstrið og einnig fyrir mynstur sem væri góð viðskiptahugmynd. Krakkarnir stóðu sig vel og mörg skemmtileg mynstur komu fram. Virkilega vel heppnuð smiðja, en það voru þær Sif og Victoria sem höfðu veg og vanda að undirbúningnum. Þeir sem fengu hönnunarviðurkenningu voru Bjarni Steinn (5.b), Olof Jóhann (6.b), Stephanie (7.b), Eyjólfur (7.b) og Sara Mekkín (8.b).

Forvarnarfræðslu í Víkurskóla

Ágætu foreldrar / forráðamenn!

Boðið verður upp á forvarnarfræðslu í Víkurskóla 19. febrúar næstkomandi kl. 17 á sal skólans. Foreldrar og forráðamenn barna og unglinga eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Aðalfræðsluaðili að þessu sinni verður Foreldrahús. Eitt af markmiðum þess er að fræða foreldra um skaðsemi áfengis- og vímuefnaneyslu og fyrstu einkenni hennar, svo að þeir geti unnið markvisst forvarnarstarf með börnum sínum. Sjá nánar um Foreldrahús: foreldrahus.is

 

Zumba í Víkurskóla!

Eins og allir vita fór Lífshlaupið 2020 af stað í gær 5. febrúar.  Í Víkurskóla var tekið forskot á sæluna þriðjudaginn 4. febrúar þegar nemendur og starfsfólk komu saman á sal skólans og dönsuðu zumba saman. Zumba er skemmtileg hreyfing sem allir geta tekið þátt í. Þetta varð hin besta skemmtun. Nú er Lífshlaupið komið á fullt skrið og nemendur og starfsfólk ætla svo sannarlega að taka þátt í verkefninu með lífsgleði að leiðarljósi.