Rannsóknarverkefni í Víkurskóla – Katla jarðvangur.

Katla jarðvangur og Víkurskóli, í samstarfi við Kötlusetur í Vík, hófu rannsóknarverkefni fyrir nemendur í Víkurskóla þann 12. janúar 2021. Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum.

Verkefnið felur í sér að nemendur í 5.-10. bekk mæla upp 6 snið í Víkurfjöru ásamt því að mæla kornastærðirnar á sandinum þar og taka ljósmyndir af formgerðunum í fjörunni. Yngstu nemendur skólans 1. -4.  bekkur munu síðan stunda sjálfstæðar rannsóknir á sandinum í Víkurfjöru, dýralífinu sem þar er að finna og rannsaka rusl sem skolast þar á land.

Stefnt er að því að nemendur mæli sniðin fjórum sinnum á ári, á vorin, seinni part sumars, haustin og um veturinn, til að fá sem besta mynd á það hvernig fjaran breytist á milli árstíða. Þá er fjörukamburinn einnig mældur til að athuga hvort það mikla landbrot sem hefur átt sér stað við Vík sé enn í gangi. Með mælingu sniðanna má sjá hvort að fjaran sé að byggjast upp eða ekki, ásamt því að reikna út u.þ.b. rúmmálið sem hefur annað hvort bæst við fjöruna eða verið fjarlægt þaðan. Athuganir á kornastærðinni í fjörunni og formgerðunum munu síðan gefa hugmyndir um orkustig strandarinnar og er kjörið tækifæri til að fræða nemendur um hið síbreytilega landslag fjara og hver áhrif loftlagsbreytinga hafa á strandsvæði.

Markmiðin með rannsóknarverkefninu eru að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að vísindalegum rannsóknum og fái að taka þátt í þeim, svo sem mælinga, söfnun upplýsinga og úrvinnslu gagna, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni. Einnig að verkefnið muni auka skilning nemenda á strandumhverfum, sérstaklega sandfjörum, og hvað það er sem veldur breytingum á þeim, svo sem landrofi og vexti.

Stefnt er að því að birta niðurstöðu mælinganna einu sinni á ári og er áætlað að þær verði til sýnis í sjóminjasafninu Hafnleysu við Kötlusetur.

Það er Jóhannes Marteinn Jóhannesson jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi sem stýrir verkefninu fyrir hönd Kötlu Jarðvangs í samstarfi við Kolbrúnu Hjörleifsdóttur verkefnastjóra Geo-skóla Víkurskóla. Auk þess munu allir nemendur Víkurskóla taka þátt og flest allir starfsmenn  koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti.

Víkurskóli hefur verið einn af Geo-skólum Kötlu UNESCO Global Geopark frá árinu 2017. Árlega vinna nemendur fjölbreytt verkefni í því augnamiði að tileinka sér og vinna með einkenni, sögu og jarðfræði nærumhverfisins til að efla umhverfisvitund og umhverfislæsi nemenda.

 

 

Fleiri myndir.

 

 

Heimsókn frá Björgunarsveitinni Víkverja

Í dag komu tveir félagar úr Björgunarsveitinni Víkverja í heimsókn til nemenda í 8.-10. bekk. Það voru þeir Einar Guðnason og Sigurður Ásgrímur Gíslason sem báðir eru fyrrum nemendur í Víkurskóla. Þeir kynntu starf sveitarinnar og sögðu frá ungliðanámskeiði sem til stendur að halda hjá sveitinni. Krakkarnir voru mjög áhugasöm og öruggt að í hópnum eru björgunarsveitarfólk framtíðarinnar. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.

 

 

stærðfræðifjör hjá 3. – 7. bekk

Það ríkir oft mikil gleði og áhugi í stærðfræðifjöri hjá 3. – 7. bekk enda verið að vinna að skapandi verkefnum í stærðfræði á fjölbreytilegan hátt.

Síðasta viðfangsefni krakkanna var að hanna og skapa bát sem gæti siglt niður Víkuránna . Í verkefninu reyndi á  útsjónasemi, samvinnu og  ígrundun og var hver báturinn á fætur öðrum listalega hannaður.

Í lokin var haldin heilmikil kappsigling á Víkuránni þar sem reyndi á hæfni bátanna, sem allir náðu í mark.

Fleiri myndir.

Í tilefni af Degi gegn einelti 8. nóvember

 

Þann 8. nóvember var baráttudagur gegn einelti. Í Víkurskóla voru fjölbreytt viðfangsefni tengd umfjöllun um einelti. Starfsfólk og nemendur unnu eitt sameiginlegt verkefni sem fólst í því að hver og einn útbjó og skreytti púsl sem síðan var raðað upp í eitt stórt mynverk. Markmið verksins er að draga fram með myndrænum hætti að við erum öll hluti af einni heild og getum öll passað saman.

Hrekkjavakan

Hrekkjavakan var skemmtileg tilbreyting í skólastarfinu. Nornir komu ríðandi á kústi, …og breyttu nemendum í alls konar furðuverur…allir bjuggu til kóngulær, svo var lesin Draugasaga, Sigrúnar Eldjárn…við skulfum á beinunum, …en komumst svo að því að þetta var glamrið í beinagrindinni á DRAUGAGANGINUM í sögunni….

 

Orðsending vegna nýrrar reglugerðar Covid-19

Vegna nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðuneytisins um takmörkun á skólastarfi vegna Covid 19 þá er Víkurskóli lokaður fyrir gestakomur frá og með 3. nóvember til og með 17. nóvember n.k. Þeir sem eiga bókað viðtal eða hafa látið vita af komu sinni eru beðnir um að vera með andlitsgrímu.

Aðgerðir Víkurskóla til að uppfylla tilmæli reglugerðarinnar verða sendar til foreldra/forráðamanna í Mentorpósti í dag 1. nóvember.

 

Skólastjórnendur

Kynning á gagnvirkri heimasíðu – kennslustund með tveimur öðrum skólum

Í dag var merkileg kennslustund hjá nemendum í 7.-10. bekk að tilstuðlan Kötlu jarðvangs, Reykjanes jarðvangs og Veðurstofu Íslands. Nemendur fengu kynningu og kennslu á heimasíðuna Íslensk eldjöll www.islenskeldfjoll.is sem er gagnvirk vefsjá og uppflettirit. Tilefni þessa verkefnis er alþjóðlegur dagur náttúruvár sem er 13. október. Þetta er að öllum líkindum í fyrsta skipti sem okkar nemendur eru í sameiginlegri kennslustund með nágrannaskólum okkar, Kirkjubæjarskóla og Hvolsskóla.

Listakotið

Í haust voru gerðar miklar lagfæringar. Nú er óðum að komast skapandi og notalegur blær á allt. Unga listafólkið er niðursokkið í margs konar listsköpun. Þroskandi og gefandi.