Listasmiðja í Víkurskóla

Sögur af sjónum

Listakonurnar Ásthildur Jónsdóttir og Guðbjörg Lind Jónsdóttir komu í heimsókn í Víkurskóla með Listasmiðjuna Sögur af sjónum.  Heimsóknin er liður í  jarðvangsfræðslu Víkurskóla, en skólinn er einn af þremur jarðvangsskólum Kötlu Geopark. Allir nemendur í 1.-10. bekk tóku þátt.

Í  verkefninu er lögð áhersla á að vinna listrænt með minningar og tilfinningar tengdar hafinu.  Hafið og vatnsbúskapur jarðarinnar hefur mikil áhrif á hvernig heimurinn þróast.  Það er mikilvægt fyrir alla að skilja hvernig vatn og lífið í hafinu tengist fólkinu sem býr á jörðinni. Þjóðir heims byggja afkomu sína á vatnsbúskap.  Víða í heiminum eru hættulegar aðstæður vegna vatnsskorts. Verkefni Ásthildar og Guðbjargar Lindar er þverfaglegt og gefur forsendur fyrir kennara að halda áfram með vinnuna og nálgast málefni hafsins út frá ólíkum upphafspunktum.  Afrakstur vinnunnar verður sýndur á Barnamenningarhátíð í sameiginlegri innsetningu í Listasafni Reykjavíkur á komandi vori.

Það er mikil fengur fyrir nemendur Víkurskóla að fá svona heimsókn.  Ánægjulegt var að sjá hvað allir höfðu gaman af að skapa og læra í smiðjunni sem sannarlega  færði anda hafsins inn í skólann.  Skólinn er afar þakklátur þessum tveimur listakonum fyrir að koma með þetta skapandi verkefni inn í skólastarfið og þakkar Ásthildi og Guðbjörgu Lind kærlega fyrir komuna.

 

Fleiri Myndir.