Þorrablót Víkurskóla 2019

Ein af skemmtilegu hefðum skólastarfsins er árlegt þorrablót nemenda og starfsfólks. Skólastarf var hefðbundið til klukkan 11:30 en þá hófst borðhald með tilheyrandi þorrakræsingum. Þar á eftir hittust allir á sal skólans og fulltrúar úr nemendaráði lásu upp vandaðan annál  úr skólastarfi síðasta árs. Því næst voru sungin þorralög og þar á meðal okkar sérstaka þorrabrag Víkurskóla en textahöfundurinn er Kolbrún Hjörleifsdóttir kennari og lagið samdi Kári Bjarkar Gestsson fyrrum kennari við tónskólann okkar. Við erum þess fullviss að fáir skólar eiga sinn sérstaka þorrasöng! Eftir þessa skemmtilegu dagskrá á sal, settust nemendur við spil, 1.-5. bekkur spilaði Ólsen-Ólsen og eldri nemendur spiluðu félagsvist. Sæmundur Örn Matthíasson landaði sigri í félagsvistinni og Daði Steinn Jóhannsson vann Ólsen-Ólsen keppnina. Afskaplega vel heppnaður dagur og allir fóru heim með bros á vör. (höf. Elín)